Rómantíkin,gæskur.....

 

Ég sá fyrstu jólaauglýsinguna í dag.Á netinu.

Og ég verð að viðurkenna að þetta  var svolítið áfall ,ef ekki hreinlega eins og kjaftshögg  í andlitið,að uppgötva að það eru bara 47 dagar til jóla.Mér var brugðið, af því að þegar að það eru bara 47 dagar til jóla, fara  allir hugsandi menn auðvitað  að velta fyrir sér jólaundirbúningnum.Og jólagjöfunum.Sérstaklega einhverju handa konunni.

Ég viðurkenni  vel , að ég hef alls  ekki alltaf verið svona forsjáll.Að byrja að velta fyrir mér jólagjöfinni handa frú Hjördísi , 7 nóvember.

Lengi framan af keypti ég nefnilega þessa sérstöku gjöf til frú Hjördísar, á aðfangadag.Svona um eittleytið í hádeginu .Nema ef að ég  var  alveg óvenjulega einbeittur, þá gat vel komið fyrir, að ég gerði það á Þorláksmessukvöld.

 Það er nú orðið langt síðan að ég varð fyrir því óláni ,að kaupa hrærivél handa ástinni minni og gefa henni í jólagjöf.Þetta var mjög falleg hrærivél  sem ég keypti og hún var líka með  stiglausum hraðabreyti  og svo var ábyggilega svona takki í gólfinu, til að bakka út úr deiginu og allt, ef maður vildi á annað borð bakka.Og ef mig misminnir ekki hrapallega, þá var meira að segja svona sportrönd  á henni.Úr krómi.

Ég var búinn að bíða eins og spenntur rottubogi alveg frá hádeginu á aðfangadag og spennan var nánast orðin óbærileg hjá mér ,þegar að frú Hjördís, horfði brosandi í augun á mér og sendi mér svona heitt augnaráð, eins og fólk gerir þegar það er að fara að opna pakka frá einhverjum ,sem það elskar mjög mikið....

Ég  er ekkert að segja að frú Hjördís hafi verið eitthvað óánægð með hrærivélina,þótt hún fengist kannske ekki til að horfa mjög djúpt í augun á mér, þessi  jól .Og væri kannske með óvenju þrálátan höfuðverk, eftir að stelpurnar voru sofnaðar ,eitthvað svolítið fram á nýja árið .En svo var það líka búið hjá henni.

En af einhverri óútskýranlegri  næmni, skynjaði ég  samt, að ástinni minni langaði ekkert í þessa gerð af hrærivél ,þarna um árið.

En þó að hún hætti  fljótlega að hugsa mikið um hrærivélina ,þá var það alls ekki þannig með fólkið mitt t.d ,Lillu og Dísu systur, sem verða enn í dag ,alltaf eins og broddgeltir ,ef ég svo mikið sem nefni hvort við eigum ekki að gefa  bara fallega hrærivél,þegar einhver ættinginn á stórafmæli.  Eða það er kannske ferming, eða eitthvað framundan í stórfjölskyldunni.Þær hafa líka alltaf staðið með frú Hjördísi.

Og vegna þess að vegir konunnar,eru svona órannsakanlegir hefur þetta sem sagt ,valdið mér töluverðu hugarangri síðan.Þessi sérstaka ,rómantíska gjöf handa ástinni minni.Það er alveg sama hvað ég hef séð flotta hrærivél í jólaljósunum. Ég hef ekki öðlast kjarkinn til að prófa aftur.

En núna hef ég, 47 daga.

Og ég sá býsna flotta ryksugu í BT um daginn ......En nú get ég ekki sagt meir.

Ég veit ekki nema frú Hjördís  lesi bloggið mitt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Jahá ! gæskur :) gættu þín á hvað þú segir he he :)

PHUUFF !!  Hrærivél ?  það var nú bara handþeytari    Ef þú finnur eina með öllu, sem blandar, hrærir, bakar og kemur henni á borðið, þá brosi ég örugglega hringinn :)   "annars er búrið fullt af allskonar græjum"  :) svo ekki flr tæki takk :) 

PS:  Hver er annars þessi frú Hjördís ?    

Didda. (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 19:06

2 identicon

Nei,Didda mín!Hóst,hóst!Varst þú hérna!?

Jæja, elskan mín,var þetta handþeytari? En það var krómrönd,ha?

Jonni (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 05:28

3 Smámynd: Laugheiður Gunnarsdóttir

alltaf jafn dásamleg bæði tvö,Bolli sendir ykkur kærar kveðjur,

Laugheiður Gunnarsdóttir, 10.11.2007 kl. 23:24

4 identicon

Jæja félagi, farinn að blogga "feitt".  Ég verð nú að segja að þú hefur nú "bara" verið "heppinn" með hrærivélina (handþeytarann) þarna um árið miðað við manninn sem keypti gullfallegt hálsmen handa frúnni í jólagjöf.  Á heimleiðinni heyrði hann í útvarpinu auglýsta steikarpönnu á góðu verði og keypti hana líka handa henni.  Lagði síðan gullmenið í pönnuna í pakkanum og náði elskuleg frúin hans að rota hann með pönnunni á aðfangadagskvöld um leið og hún opnaði pakkann áður en hún sá hálsmenið falla á stofugólfið við hlið eiginmannsins, gleðileg jól!!  Bestu kveðjur frá fyrrverandi skipsfélaga.

Sigurbjörn Tryggvason (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 06:01

5 identicon

Hahaha það sem allir karlmenn eiga að vita að þeir eiga að gefa konunum sínum það sem þær tíma ekki að kaupa sér og það eru nærföt, ilmvötn og skartgripi!! Þú manst það kannski um þessi jól pápi minn að þú átt þrjá afkomendur sem eru allar konur!! og sem vilja glaðar hjálpa þér að velja;) Þú ert samt búinn að vera heppinn. Hefur oftast valið vel og ég hef sjaldan séð annað en bros á múttu gömlu á aðfangadag;) Ekkert fengið í hausinn ennþá;)

Hulda (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 08:43

6 identicon

Ég skil nú ekki þessi læti.. ég til dæmis lenti í því á sunnudaginn að ég var að hefja jólabaksturinn. Reif allt saman útúr skápum og skúffum og undirbjó mig eins vel og hægt var. Lenti þá í því að ranka við mér handþeytaralaus. Sjáðu til, ef maki minn væri ekki alltaf svo skíthræddur við að fá jólagjafirnar í hausinn ætti ég handþeytara! Og hefði ekki þurft að gera mér ferð í Hagkaup á rólegum sunnudegi til að versla mér einn slíkan, og sá var sko ekki með neinni krómrönd. En í staðinn valdi ég þennan litla með 'turbo' takkanum. Hlakka til að nota hann. Alltaf kúl að eiga eitthvað með svona Túrbó.

Ég fékk nú svo fallega gjöf frá makanum í síðasta mánuði, veit ekki hvort honum hefur þótt þörf á en hann skellti sér einn daginn í Húsasmiðjuna og færði mér svo baðvigt, skælbrosandi og ánægður með sjálfan sig. 

.. eins gott að honum finnist 1944 gott, því ekki elda ég fyrir hann lengur. 

alfa (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 16:19

7 Smámynd: Laugheiður Gunnarsdóttir

Já  Bolli brói mætti nú læra aðeins af þér jonni minn ennþá er hann í vandræðum með afmælisgjafir og jólagjafir ég væri æðisleg ánægð ef ég fengi nú góðan handþeytara eða eitthvað annað en vandræðasvipin á mínum karli þegar þessir tímar eru sem hann þarf að hugsa fyrir gjöfum hana sinni heitt elskaðri.knús og kveðjur til Diddu og stelpnana

Laugheiður Gunnarsdóttir, 15.11.2007 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jonni á Uppsölum

Höfundur

Jóhann Jóhannsson
Jóhann Jóhannsson
Sjómaður og afi
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband