En það voru tvö tár...

Afsakið,ég þurfti aðeins að skjótast frá.


Nei, frómt frá sagt,beint og krókalaust þá hef ég ekki bloggað tímabundið vegna þess að mér hættir til að taka of mikið mark á því sem vinir mínir segja.
Ég hef sem sé ekki bloggað tímabundið ,vegna þess að hann Haffi ráðlagði mér alveg eindregið, að steinhætta því.
Hann sagði sem svo, að ég ætti fjölskyldu,konu og börn og barnabörn, svo þetta væri alls ekki mitt einkamál, þetta bölvaða bull.
"Svona getur þetta alls ekki gengið"sagði Haffi vinur minn og var svo brúnaþungur, að mér stóð alls ekki á sama og lofaði að hætta.
Nú verð ég að taka það fram ,að mér höfðu svo sem borist fjöldi annara áskorana ,um að steinhætta þessu.
Róbert, sem hefur alltaf reynst mér vel ,þótt hann telji mig ekki sérstaklega heppilegt andlit skipsins út á við ,hvatti mig drengilega til að láta staðar numið og þegar að hún frú Hjördís ,sem vill mér alltaf mjög vel ,hafði dæst nokkrum sinnum,horft niður í gólfið nokkrum sinnum og svo til himins og sagt"Elsku Jonni minn"......" nokkrum sinnum,þá var það kornið sem fyllti mælinn.Svo höfum við auðvitað ofurbloggarann Tobba!

Auðvitað steinhætti ég að blogga.

En nú verð ég bara að blogga.Ástæðan er einföld.
Ég eignaðist þriðja afabarnið fyrir stuttu.Það var lítil heilbrigð stelpa sem kom í heiminn þann 16. apríl síðastliðinn og ég hef ekki séð hana ennþá, þó hún sé að verða mánaðargömul.
Nema á netinu.
Hún heitir Lilja Dögun Lúðvíksdóttir og veit ekki enn að hún á afa sem er svolítið meyr undir öllum hrukkunum og er mjög stoltur afi , þótt hann hafi bara séð hana á netinu.
Hún veit ekki heldur, að afi hennar slæst við hákarla,risakolkrabba og hverskyns sæskrímsli á hverjum degi.Þetta mun ég einhvertíma segja henni, af því að ég get ekki gleymt
aðdáuninni í augum hinna afabarnanna þegar ég sagði þeim þetta.
En afi er líka meyr.Það gerir sennilega aldurinn.
Og nú fer ég á trúnó.
Og ef einhver nuddar mér uppúr því sem ég ætla að segja núna, er ég reiðubúinn til að verða vitlaus, hvar og hvenær sem er!
Því þegar að ég talaði við hana dóttur mína í síma um daginn og heyrði hana litlu Lilju Dögun ískra í fangi mömmu sinnar,fékk ég kökk í hálsinn og varð orða vant.
"Kraftaverk"....Saklaust lítið kraftaverk"....hugsaði ég.
Ég var reyndar svo snöggur að redda mér, að ég held að hún dóttir mín hafi alls ekki fattað það að gamli væri að tapa kúlinu.
"Hvaða bölvaður hávaði er þetta í krakkanum"?sagði ég.Og var svolítið rámur.
En það voru tvö tár...


Þorgrímur Þráinsson og ég

 

Jæja.

Þá eru jólin að baki og  blákaldur veruleikinn tekinn við.Og ég er býsna feginn.Ég er feginn  af því að ég veit ekki hvernig þetta hefði endað ef jólin hefðu orðið öllu lengri.Ég veit ekki hvort strákarnir hefðu tekið í mál að hífa mig um borð í fiskikari, eins og allt stefndi í að þyrfti að gera.Það að hífa menn svona um borð í fiskikari, er reyndar þekkt úr Íslandssögunni ,þó það sé auðvitað ekki til eftir breytni.

Ég er líka fegin að jólin eru að baki ,af því að þá hafði ég engan tíma  til að blogga, því ég var svo önnum kafin við að borða.

En  nú er  ég sem sagt farinn að strjúka véladótinu mínu aftur.Ég er nefnilega  svokallaður „Baadermaður".Það þýðir ekkert fyrir mig að neita því.Það er ekki hægt að leyna sumum hlutum ,þótt maður kysi helst að þeir færu ekki mjög hátt. Sem sagt,ég er maður fárra fingra ,eins og Gunni Ella orðar það.

 Á  gamla skipinu mínu sem ég var á í 17 ár, voru alltaf ríflega tuttugu „Baader" sérfræðingar og svo tveir hálfvitar, sem sáu um að reyna að keyra draslið.Þessir tveir hálfvitar voru kallaðir „Baadermenn" svo kjánalegt sem það nú er. Ég hef aldrei komist almennilega að því hvað þetta starfsheiti þýðir, en hef giskað á að það þýddi annað hvort sérhlífinn bjáni eða illa gefinn letihaugur .En þetta þarf alls ekki að vera rétt hjá mér .Ég er nefnilega hroðalega slakur í þýskunni.Þetta er nú meira svona tilfinning.

En ég held samt að ég hafi heyrt eða lesið einhverstaðar að Baadermenn séu líka fólk og þess vegna er ég bara sperrtur.Og ætla að trúa því alveg statt og stöðugt.Hvað sem tautar og raular.Enda erum við svo ótrúlega heppnir, að þetta baknag í „Baadermennina", þekkist bara alls ekki, á nýja skipinu mínu.

Ég held meira að segja  kannske ,að þetta um að við værum líka fólk, hafi verið í nýju sjálfshjálparbókinni hans Þorgríms Þráinssonar."Hvernig þú  gerir konuna þína hamingjusama".

Það renna nefnilega upp úr honum trikkin,um allt milli himins og jarðar ,alveg fyrirhafnarlaust.

Nefndu það og Þorgrímur veit það....Og ég er honum gríðarlega þakklátur.

Drottinn minn dýri,hvað frú Hjördís á eftir að verða happy í framtíðinni!


Bræður og systur!

 

Litlu stelpurnar mínar ,sem ég er mjög stoltur af ,eins og öllum mínum afkomendum reyndar, hafa svo oft sagt  beint við mig  og ennfremur í ræðu og riti ,að meint leti pabba síns,sé öllum löstum verri og þar af ,sé  sennilega bloggletin verst.

Ef ég fer á annað borð á trúnaðarskeiðið eins og mér hættir stundum til,þegar ég er sérstaklega meyr, get ég vel viðurkennt að  dætur  mínar, hafa sennilega rétt fyrir sér , þó ég reyni stundum af veikum mætti að þræta við þær, enda þótt  ef ég kryfja  málin mjög djúpt, þá er allt mitt nánasta fólk, reyndar töluvert miklu betur gefið en ég ,og svo miklu líklegra en ég  til að standa við skuldbindingar  ,sem er út af fyrir sig  sárt ,þó  það sé satt!

Þess vegna langar mig  núna að opinbera fyrir öllum ,vinum mínum  og ættingjum  og fjölskyldu,þessa bölvuðu tilfinningasemi sem  er þó sett fram af væntumþykju og virðingu!

Samandregið:

Öllum bróunum mínum,systunum, mínum,ættingjum og vinum ,sem og skipsfélögunum öllum ,sem hafa gert lífið mitt þess virði að lifa því ,óska ég endalausrar gleði og hamingju í lífinu öllu!

Megi allar góðar vættir fylgja ykkur öllum,vinir mínir :

Og:

 Gleðileg jól til ykkar allra!Og gleðilegt nýtt ár!

Jonni


Bleikt eða blátt!

 

Ég er búinn að vera önnum kafinn maður síðustu daga.

Frómt frá sagt ,þá tjáði frú Hjördís mér það fyrir fjórum dögum síðan að ,að fyrst ég skyldi ég nú af öllu ,hengja upp jólaseríurnar,sem eru mjög margar ,að mínu mati , eða hafa ellegar verra af!

Og þegar ég spurði hana hvað hún meinti,þá brosti hún ískalt og sagði:

„Jólaseríurnar upp, eða ekkert......."

Nú finnst mér endilega, ég ekki  þurfa að útskýra neitt meir ,fyrir fullorðnum  og sæmilega vel gefnum mönnum ,hvað hún frú Hjördís átti við, enda geri ég það alls ekki,  nema hvað ég  auðvitað valdi, að gera það sem hún frú Hjördís bað mig að gera.

Þetta er auðvitað  allt spurning um að velja  meiri hagsmuni, fyrir minni....þannig er nú bara lífið í hnotskurn.Og ég valdi að sjálfsögðu að setja upp ,helvítis seríurnar ,þó að það tæki nokkra daga ,til þess að þá fá  kannske eitthvað miklu ,miklu, skemmtilegra  í staðinn.

Það breytir samt ekki því,að það verður erfiðara  og erfiðara  með hverjum deginum að skilja alla femínistana sem vilja jafnrétti  út í eitt,hvað sem það kostar.

Og nú spyr ég , einfaldur sjóari, sem elskar konuna  sína mjög mikið:  

Halló! 

Kolbrún Halldórs, myndirðu ekki fíla mig miklu betur , ef ég segði frú Hjördísi að hundskast til að hengja upp sínar jólaseríur sjálf?

Hey ,ég veit það nú einu sinni ,að það var  einu sinni kvenmannsverk að hengja upp jólaseríur!

En ,Kolbrún ,please, láttu mig heyra um það sem særir femínistann í þér!

Kv

Jonni!


„Til hamingju með daginn ,brói minn,mér þykir vænt um þig"!

 

Það er 26. nóvember í dag.Og nú má ég til. Ég má til að segja örfá orð á blogginu mínu ,af því að mig langar að tala pínulítið hlýlega til tveggja vina minna.Þetta er sem sagt nokkuð óvenjulegur dagur  bara  af því að það er ekkert á hverjum degi, sem jafnbreyskum manni  og mér, langar svona mikið til gleðja bróa minn,hvað þá tvo í einu! Og þessi dagur er svona  merkilegur af því að tveir menn sem vill til, að mér er svona hlýtt til, eiga báðir stórafmæli á sama deginum.

Ingi litli ,bróðir minn er fertugur og Sturla brói  er fimmtugur .Þessir tveir menn eiga það sameiginlegt, fyrir utan það að eiga sama afmælisdag ,að í fyrsta lagi talar hvorugur, nokkur tíma  frá sér vitið og í öðru lagi þykir mér mjög vænt um þá báða.Og t.d  að sjá fyrir sér að litla drenggerpið hann Ingi  bróðir minn, sem  er fertugur í dag ,verði  sennilega  bráðum hrukkóttur , alveg eins og ég og vonandi  kannske einhverntíman , þunnhærður alveg eins og ég ,er einkennileg tilfinning.

Það er líka svona  söknuður í fortíðarhyggjunni ,sem kviknar á þessum tímamótum .Að upplifa  að hann  litli bróðir minn sé orðinn svo þroskaður ,að ég fái sennilega aldrei að berja hann aftur, né heldur geti ég, nokkur tíma aftur, látið hann vinna fyrir mig leiðinlegustu verkin ,alveg eins og ég gerði í sveitinni í  gamla daga.

En  þó að þessir tveir menn eigi ýmislegt sameiginlegt ,er það einmitt þetta sem skilur á milli þeirra.

Sturla bro,er maður sem ég mundi aldrei reyna að láta vinna fyrir mig leiðilegustu verkin,bæði af því að hann er sennilega  bæði sterkari en ég og þess utan ræður hann öllu á skipinu og er ,þótt ég sé  miklu feitari en hann,  sennilega hugsanlega frekari .

Ég hef heldur aldrei barið Sturlu, enda aldrei  langað neitt til þess , svo að það er einhvernvegin öðruvísi með hann en litla bro,sem var eiginlega bara skylda  að berja fyrir ca.30 árum.Enda langar mig líka núna að segja við litla bro:

„Ingi minn, ég var bara svo ungur og jafnvel enn vitlausari þá!"

Og við báða kallana mína ,Sturlu og Inga ,segi ég:

„Til hamingju  með daginn ,brói minn,mér þykir vænt um þig"!


"You can call me slow,but I‘m not stupid!"

 

Róbert Hafliðason er orðinn örlagavaldur í mínu lífi.Ég sagði frá því um daginn að hann hefði sagt að honum finndist nafnið mitt ljótt.Ég laug því að vísu upp á hann ,en hann hefði samt vel hafa getað sagt það ,miðað við hvernig hann horfir stundum á mig þegar ég kem upp í brú,nývaknaður.

Og af því að það er út af fyrir sig þekkt staðreynd ,að nývaknaður  togarasjómaður sem er löngu orðinn afi ,er sjaldnast skemmtilegur og aldrei neitt augnayndi , hef ég alveg skilið hvað þetta augnaráð þýðir.

Og nú sit ég hérna og blogga, alveg nýrakaður og það blæðir úr skurði á nefinu á mér  ,bara af því að skipstjórinn, spurði mig í morgun:

 „Ertu hættur að raka þig, mannskratti?"

 Og svo horfði  hann þannig á mig að hann var bara alveg merkilega líkur frú Hjördísi í framan, þegar hún ætlast til að ég hunskist strax í klippingu eða rakstur.Merkilega líkur henni ,miðað við það að þau eru alveg af sitt hvoru kyninu og mér finnst hún Didda mín miklu fallegri en hann.

Sturla og Frikki eru báðir einhvernvegin miklu prúðari menn og fara miklu fínna í þetta þegar þeim blöskrar útgangurinn á mér. Það er alveg sama hversu nývaknaður ég er,þeir eru ekkert nema  skilningurinn og  forðast að svo mikið sem nefna þetta.Og ég hef aldrei þurft að raka mig fyrir þá, til að halda plássinu mínu .

Og einmitt núna, lekur blóðið úr sárinu, á nefinu á mér.Og þetta er reglulega ljótt sár. Og ég er að velta því fyrir mér hvort ég ætti að fá Róbert til að sauma nokkur spor í þetta.Mér finnst einhvernvegin að það standi honum næst.

Og svo gæti ég líka best trúað því að ég fengi ör á nefið.Og ef  það var eitthvað sem mig vantaði alls ekki ,þá var það enn eitt ör ,á nefið.

Þessvegna er Róbert kannske orðinn örlagavaldur í lífi mínu.Hver veit nema þetta sé orðið tryggingamál eða jafnvel skaðabóta?

 „You can call me slow,but I‘m not stupid!"


Rómantíkin,gæskur.....

 

Ég sá fyrstu jólaauglýsinguna í dag.Á netinu.

Og ég verð að viðurkenna að þetta  var svolítið áfall ,ef ekki hreinlega eins og kjaftshögg  í andlitið,að uppgötva að það eru bara 47 dagar til jóla.Mér var brugðið, af því að þegar að það eru bara 47 dagar til jóla, fara  allir hugsandi menn auðvitað  að velta fyrir sér jólaundirbúningnum.Og jólagjöfunum.Sérstaklega einhverju handa konunni.

Ég viðurkenni  vel , að ég hef alls  ekki alltaf verið svona forsjáll.Að byrja að velta fyrir mér jólagjöfinni handa frú Hjördísi , 7 nóvember.

Lengi framan af keypti ég nefnilega þessa sérstöku gjöf til frú Hjördísar, á aðfangadag.Svona um eittleytið í hádeginu .Nema ef að ég  var  alveg óvenjulega einbeittur, þá gat vel komið fyrir, að ég gerði það á Þorláksmessukvöld.

 Það er nú orðið langt síðan að ég varð fyrir því óláni ,að kaupa hrærivél handa ástinni minni og gefa henni í jólagjöf.Þetta var mjög falleg hrærivél  sem ég keypti og hún var líka með  stiglausum hraðabreyti  og svo var ábyggilega svona takki í gólfinu, til að bakka út úr deiginu og allt, ef maður vildi á annað borð bakka.Og ef mig misminnir ekki hrapallega, þá var meira að segja svona sportrönd  á henni.Úr krómi.

Ég var búinn að bíða eins og spenntur rottubogi alveg frá hádeginu á aðfangadag og spennan var nánast orðin óbærileg hjá mér ,þegar að frú Hjördís, horfði brosandi í augun á mér og sendi mér svona heitt augnaráð, eins og fólk gerir þegar það er að fara að opna pakka frá einhverjum ,sem það elskar mjög mikið....

Ég  er ekkert að segja að frú Hjördís hafi verið eitthvað óánægð með hrærivélina,þótt hún fengist kannske ekki til að horfa mjög djúpt í augun á mér, þessi  jól .Og væri kannske með óvenju þrálátan höfuðverk, eftir að stelpurnar voru sofnaðar ,eitthvað svolítið fram á nýja árið .En svo var það líka búið hjá henni.

En af einhverri óútskýranlegri  næmni, skynjaði ég  samt, að ástinni minni langaði ekkert í þessa gerð af hrærivél ,þarna um árið.

En þó að hún hætti  fljótlega að hugsa mikið um hrærivélina ,þá var það alls ekki þannig með fólkið mitt t.d ,Lillu og Dísu systur, sem verða enn í dag ,alltaf eins og broddgeltir ,ef ég svo mikið sem nefni hvort við eigum ekki að gefa  bara fallega hrærivél,þegar einhver ættinginn á stórafmæli.  Eða það er kannske ferming, eða eitthvað framundan í stórfjölskyldunni.Þær hafa líka alltaf staðið með frú Hjördísi.

Og vegna þess að vegir konunnar,eru svona órannsakanlegir hefur þetta sem sagt ,valdið mér töluverðu hugarangri síðan.Þessi sérstaka ,rómantíska gjöf handa ástinni minni.Það er alveg sama hvað ég hef séð flotta hrærivél í jólaljósunum. Ég hef ekki öðlast kjarkinn til að prófa aftur.

En núna hef ég, 47 daga.

Og ég sá býsna flotta ryksugu í BT um daginn ......En nú get ég ekki sagt meir.

Ég veit ekki nema frú Hjördís  lesi bloggið mitt!


Draumurinn sem dó

 

Fyrir mjög löngu síðan, þegar að það voru ennþá milljónir hára í hausnum á mér og ég sá auðveldlega ofan á kollinn á fermingarbróðir mínum ,gat það hent ungan og öran mann að láta sig dreyma dagdrauma um framtíðina.Þetta voru dýrir draumar ,sem kostuðu ekki neitt og gerðu engum neitt til.

Og ef ég gætti þess vandlega að segja ekki afa mínum frá draumunum ,var ekki nokkur maður að gera athugasemdir við þessa drauma.Afi minn var nefnilega jarðbundinn og skynsamur maður ,sem fannst skynsamlegt að  trúa því statt og stöðugt  að himnarnir væru svona um það bil að hrynja í hausinn á manni  og óþarfi ,ef ekki beinlínis heimska, að gera sér miklar væntingar um að það kæmi  morgundagur.

En mér þótti mjög vænt um hann afa minn og hélt þessum draumum, þessvegna vandlega leyndum fyrir honum.

Þetta var sem sagt um það leyti sem  mig fór að líka að dreyma djarfa drauma .En bara í laumi.Drauma um að stelpan sem ég sá á tröppunum á Hótel Akureyri og varð seinna að frú Hjördísi,myndi einhver  tíma áreyta mig, kynferðislega.

Þetta voru svona  draumar um gæfu og gjörvileika í framtíðinni,peninga og völd og þarna var alveg ábyggilega líka draumurinn um að geta kannske einhvertíman spúlað í skiljara, þegar væri verið að dæla kolmunna.Og gera það almennilega.

Draumarnir hafa sumir ræst og aðrir ekki .Eins og gengur.

Ég hef aldrei eignast peninga og þaðan af síður öðlast völd.Kannske verður eina vegtyllan, sem presturinn sem jarðsyngur mig  getur notað í líkræðunni  ,fluguhnýtinganámskeiðið  sem ég fór á hjá Einari Long í gamla daga.

En sumir draumarnir rættust!

Frú Hjördís  byrjaði snemma að áreyta mig  svo ferlega kynferðislega að ég eignaðist 3 dætur sem eru allar betur gerðar en pabbi þeirra og miklu,miklu fallegri.Og afastrákarnir og eitt á leiðinni, hafa réttlætt allan bardagann.Margt hefur mér hlotnast í lífinu sem ég er þakklátur fyrir og stoltur af.

En.....

Það svíður og það brennur og það liggur á mér ,og það er sárt... einn draumurinn er dáinn og hann kemur aldrei aftur.Það veit ég nú.

Hjölli drap hann, þegar hann sagði mér bara mjög vingjarnlega,þar sem við stóðum saman upp á skiljara ,að ég myndi sennilega aldrei geta spúlað svo vel færi í skiljarann.

Þetta er víst spurning um gráður og halla og horn á spúlnum og einhver bölvuð eðlisfræði sem ég höndlaði ekki einu sinni í landsprófinu í den.

Ég átti bara aldrei séns!


Sturla,mega þeir þetta?

Haffi og Þröstur eru hrekkjusvín.
Svo mikið hef ég lært.Þeir eru alltaf einhvern djöfulinn að stríða manni og það eru alltaf einhver andskotans hrekkjabrögð í gangi, hjá þeim báðum.
Og það er ekki betri sú músin sem læðist, því ég hef tekið efir því að það trúir enginn þessu upp á þá.

Alltaf sama sagan,engilásjónan sett upp og þarna bölvað ,selkóps-lúkkið með stóru augun galopin af undrun, ef eitthvað er borið upp á þá.Og alltaf komast þeir upp með þetta.Bara út á lúkkið.Ég ætlaði ekkert að fara að tjá mig um þetta, en ég hef bara séð Haffa, æfa þessi lúkk framan við spegil.Þegar hann vissi ekki af mér.Og mér bara blöskraði ,þegar svipbrigðin voru orðin þarna lúkkið ,sem þú setur upp þegar þú nærð í barnabörnin á leikskólann og reynir að blekkja sætu fóstruna svo hún haldi að þarna sé besti afi í heimi.Trausti svipurinn um ,leið og þú ert vingjarnlega týpan, sem má ekki vamm sitt vita í neinu.

En svo kom nú kornið sem fyllti mælinn. Kom ekki svipurinn hjá Haffa sem ég hélt í einlægni að ég ætti einkarétt á.Svipurinn sem ég nota þegar að frú Hjördís heldur því fram að ég hafi verið að gera einhvern djöfulinn af mér.Þetta er svona einhvern veginn ,ótrúlega einlægur svipur.Stór augu eins og í selkópslúkkinu, en meira út í dádýrstaktana. Stór augu með lyftum brúnum og sársaukabliki og gott að opna munninnn svolítið og kippast örlítið til. Í sorg og depurð yfir því fáránlega sem er verið að bera upp á mann.
Ég hefði aldrei nokkur tíma klagað þá, ef þeir hefðu bara látið minn svip í friði.

Haffi og Þröstur,þetta "lúkk" á ég


Rosalega hjólar þú hægt, afi!

Ég á tvo dóttursyni sem eru svo frískir og svo virkir, að ég er mjög stoltur af þeim.Þetta hafa þeir frá afa,hugsa ég stundum. Þeir  eru meira að segja svo frískir ,að stundum hef ég haldið því fram að þeir ,svona undir niðri og ómeðvitað, vilji drepa afa sinn.Í sumar þegar ég var aleinn að passa þá,af því að frú Hjördís nennti því ekki og fór bara í vinnuna í staðinn,setti ég þá ,upp á hjólin þeirra og spennti á þá hjálmana.Og af því að ég vil stundum vera skemmtilegur afi, sagði ég:

"Í dag höfum við gaman,saman kallarnir"!

Og af því því að ég er stundum mjög  ábyrgur afi ,setti ég  eina reglu,einfalda og skýra:

"Ekki hjóla niður á bryggju og ekki hjóla upp á veg"!

Þeir jánkuðu því og hjóluðu svo af stað,annar niður á bryggju og hinn upp á veg.Og af því að frú Hjördís hafði ekki nennt að passa þá fyrir dóttur sína og hafði farið í vinnuna sína í staðinn, var ég bíllaus.

Nú getur hver séð sjálfan sig í því ,að það að vera bíllaus um leið og maður viktar á annað hundrað kíló, er ekki nokkrum manni hollt ,við þessar aðstæður.Það getur verið mjög slæmt fyrir hjartað .Bara af því að, ef maður er á annað borð mjög ábyrgur afi ,þá grípur maður gamla hjólið, í svona tilfellum og hjólar af stað ,á ofsahraða.Fyrst ofan á bryggju og svo upp á veg.Á sama ofsahraðanum allan tímann.

Og þegar maður leggur sig í svona hættu og leggur svona hreinlega allt undir, svoleiðis að lífshlaupið þýtur allt fyrir hugskotssjónum á sekúndubrotum ,vegna ofsaaksturs á reiðhjóli, vill enginn maður heyra frá afkomendum sínum það sem ég mátti þola. Því þegar ég náði þeim seinni og var að reyna að jafna mig nógu mikið ,til að verða vitlaus, sagði strákskr..... bara:

Rosalega hjólar þú hægt, afi!


Næsta síða »

Um bloggið

Jonni á Uppsölum

Höfundur

Jóhann Jóhannsson
Jóhann Jóhannsson
Sjómaður og afi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband